Samþykkt var á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur í dag með 5 atkvæðum gegn 1 að heimila að byggt verði húsnæði fyrir 6 geðfatlaða einstaklinga á Holtavegi við hlið núverandi sambýlis fyrir fatlaða. Stóðu fulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að samþykktinni en fulltrúi VG var andvígur. Málinu var vísað til borgarstjórnar.
Fjöldi athugasemda barst frá íbúum í nágrenninu. Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi VG, og Margrét Sverrisdóttir, áheyrnarfulltrúi F-lista, létu bóka á fundinum, að ljósi þeirra athugasemda sem komið hafi fram og þeirrar staðreyndar að verið sé að ganga á Laugardalinn með afgerandi hætti greiði fulltrúi Vinstri grænna atkvæði gegn tillögunni. Kjósi fulltrúar Vinstri grænna og F lista að standa með Laugardalnum sem sé eitt þeirra grænu svæða í borginni sem eigi sannarlega undir högg að sækja.
Fulltrúar hinna flokkanna þriggja lögðu fram sameiginlega bókun þar sem segir að staðsetning hússins taki mið af þörfum þeirra geðfötluðu einstaklinga, sem þarna muni búa, enda talið sérlega mikilvægt að þeir njóti nágrennis við opin og græn svæði. Með þessari staðsetningu sé í engu gengið á útivistarsvæði í Laugardalnum, enda hafi þetta svæði hingað til verið umráðasvæði garðyrkjustjóra.