Þjófur spennti upp útidyrahurð hjá fyrirtæki í Reykjavík í nótt og hafði á brott með sér hársnyrtivörur, sokka og smáræði af skiptimynt. Í sama borgarhluta var farið inn í stigahús en þar stal þjófurinn nokkrum skópörum.
Í miðborginni tók karl á miðjum aldri útvarpstæki ófrjálsri hendi úr glugga í húsi í ónefndri götu. Til hans náðist og var honum gert að skila útvarpstækinu aftur á sinn stað.
Þrjú innbrot í bíla í Reykjavík voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Úr einum var stolið radarvara, úr öðrum var tekið veski og rafgeymir hvarf úr þeim þriðja. Þá var skráningarnúmerum stolið af fjórða bílnum.