Útvegsbændur í Eyjum segja mótvægisaðgerðir dropa í hafði

Útvegsbændur í Vestmannaeyjum segja að á undanförnum 6 árum hafi samfélagið í Eyjum fært fórnir upp á 3,1 milljarð króna í formi byggðakvóta, línuívilnunar og ýmissa bóta, meðal annars vegna brests í rækju- og skelveiðum, útflutningsálags og þróunarsjóðsgjalds sem síðar varð að veiðigjaldi.

Þannig hafi Eyjamenn í raun og veru stutt aðrar sjávarbyggðir árlega með liðlega 500 milljóna króna skerðingu eigin aflaheimilda og með sérstökum gjöldum sem færð hafi verið öðrum byggðarlögum í nafni byggðastefnu.

Þetta kom fram á aðalfundi Útvegsbændafélags Vestmannaeyja á mánudag. Í tilkynningu frá félaginu segir, að upplýsingarnar byggist eingöngu á útflutningsverðmæti ísfisks í gámum en ekki sé tekið tillit til aukins vinnsluvirðis sem falli til við vinnslu í landi og áhrifa þess á tekjur fiskvinnslufyrirtækja og landverkafólks og tekjur Vestmannaeyjabæjar af útsvari. Þá séu í engu metin hin svokölluðu margfeldisáhrif aukinna umsvifa sem tengist tekjuauka.

Félagið segir, að tekjur sjómanna í Vestmannaeyjum hafi verið skertar af framangreindum ástæðum um rúmlega 1 milljarð króna frá 2002 til 2007. Útsvarstekjur bæjarsjóðs hafi rýrnað á sama tíma um alls 130 milljónir króna og tjón útgerðarfyrirtækja í Eyjum nemi af sömu ástæðum um 1.250 milljónum króna frá árinu 2002. Þá sé eingöngu tekið tillit til hagnaðar útgerðarinnar fyrir afskriftir, vexti og skatta. Eftir skatta sé tjónið minna en erfitt er að meta skattgreiðslur útgerðanna án þess að kanna rekstur hvers og eins útgerðarfélags.

Útvegsmenn í Eyjum segjast vilja vekja sérstaka athygli á tölum um þennan fórnarkostnað í ljósi þess að ríkisstjórnin hyggst nú færa sjávarbyggðum jafnvirði 6,5 milljarða á næstu þremur árum til mótvægis við skertar þorskveiðar. Þar af virðist Eyjamönnum ætlað að fá um 100 milljónir króna, en 36 milljónir af þeirri fjárhæð sé stuðningur við samgöngur til Vestmannaeyja.

„Ekki er verið að gera lítið úr mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar en hér er samt einungis verið að ræða þann skell sem Eyjasamfélagið hefur þurft að þola undanfarin ár. Enn stærri skellur er yfirvofandi: Ef lagður er saman ætlaður tekjumissir útgerða í Vestmannaeyjum árið 2008 vegna skerðingar í þorski og ýsu og vegna hlutdeildar þeirra í byggðakvóta, línuívilnun og sérstökum bótum ýmiskonar, auk áætlaðs veiðileyfagjalds, nemur tjónið 1.540 milljónum króna eða um 376 þúsundum króna á hvern einasta íbúa í Eyjum. Þetta svarar til þess að á höfuðborgarsvæðinu, frá Mosfellsbæ í Hafnarfjörð, skertust tekjur fyrirtækja um 72,5 milljarða króna," segir í tilkynningu útvegsbænda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert