Þrjátíu og tveir fatlaðir íþróttamenn verða fulltrúar Íslands á alþjóðaleikum Special Olympics 2007 sem verða settir í Shanghai í Kína 2. október nk. Munu Íslendingarnir keppa í boccia, borðtennis, fimleikum, frjálsum íþróttum, golfi, keilu, lyftingum og sundi.
Íþróttasamband fatlaðra er umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, situr í stjórn Special Olympics og verður viðstaddur leikana.
Ólafur Ragnar ávarpaði í dag blaðamannafund frá Búkarest, þar sem hann er í opinberi heimsókn. Hann sagði m.a. að alþjóðaleikar Special Olympics í Kína væru mannréttindaviðburður. Hann sagðist hafa átt fund með Timothy Kennedy Shriver, þar sem rætt hefði verið hvernig íslensk fyrirtæki hefðu komið veglega að verkefninu og hvernig alþjóðahreyfingin gæti nýtt slíkt samstarf fyrirtækja á alþjóðavettvangi.
Actavis, Exista og Glitnir eru aðalstyrktaraðilar vegna þátttöku Íslands á leikunum og var samningur um stuðning fyrirtækjanna undirritaður á fundinum. Styrkurinn nemur alls tólf milljónum króna.
Special Olympics International eru samtök sem stofnuð voru af Kennedy fjölskyldunni árið 1968. Samtökin hafa vakið heimsathygli vegna markvissrar markaðssetningar og samstarfs við sérfræðinga á öllum sviðum. Þroskaheftir og seinfærir einstaklingar sem oft eru settir til hliðar í samfélögum þjóðanna, eru miðpunktur leika á vegum samtakanna. Umgjörð og skipulag er eins og um ólympíuleika sé að ræða en keppni er á jafnréttisgrundvelli og allir verða sigurvegarar. Allir eiga því jafna möguleika á að vera valdir á þessa leika á meðan aðeins þeir allra bestu komast á Paralympics í Peking árið 2008.