Að minnsta kosti 50-60 kíló af amfetamíni fundust um borð í skútu, sem lögregla lagði hald á í Fáskrúðsfjarðarhöfn í morgun. Fimm Íslendingar voru handteknir vegna málsins í morgun og í dag hafa tveir verið handteknir í Danmörku og einn í Noregi. Lögregla í Danmörku, Færeyjum, Noregi, Hollandi, og Þýskalandi kom að rannsókn málsins, sem nefnt hefur verið Aðgerð Pólstjarnan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá evrópsku lögreglunni Europol.
Í tilkynningunni kemur fram, að handtökur, húsleitir og aðrar aðgerðir hafi farið fram í allan dag í Danmörku, Færeyjum og Noregi. Rannsókn málsins hafi staðið yfir um langan tíma undir stjórn fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæsluna.
Í tilkynningunni segir Max-Peter Ratzel, forstjóri Europol, að stofnunin leggi mikla áherslu á aðgerðir gegn fíkniefnum og því sé ánægjulegt að tekist hafi að leysa upp einn af hringjunum, sem stundað hafa fíkniefnasmygl til Íslands. Það sé árangur náinnar samvinnu lögregluliða innan og utan Evrópusambandsins.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni í dag, að þess verði minnst sem merks atburðar í sögu lögreglu og landhelgisgæslu, sem gerðist í dag, þegar samvinna þessara aðila leiddi til þess, að komið var upp um stórfellt smygl á fíkniefnum til landsins með skútu, sem kom til hafnar í Fáskrúðsfirði.
Segir Björn, að árangurinn byggist á árvekni, trausti og trúnaði milli þeirra, sem hafi unnið að því að upplýsa málið og einnig á þeim breytingum, sem orðið hafi á skipan lögreglumála og landhelgisgæslu, auk viðtæks alþjóðlegs samstarfs.
Fíkniefnin sem fundust í dag er mesta magn svonefndra hvítra efna sem fundist hefur í einu hér á landi.