Mikil lögregluaðgerð stendur nú yfir á Fáskrúðsfirði eftir að skúta kom þar til hafnar snemma í morgun. Engar upplýsingar hafa fengist um málið hjá lögreglu á staðnum eða embætti ríkislögreglustjóra en samkvæmt upplýsingum Alberts Kemp, fréttaritara Morgunblaðsins á staðnum, er greinilega um stórmál að ræða.
Þá segir hann að varðskip hafi komið til hafnar í morgun og að skútan hafi verið færð að borðstokk þess. Kafarar hafi sést í höfninni og einnig telji sjónarvottar að fjórir ómerktir lögreglubílar hafi verið á hafnarsvæðinu í morgun. Þegar líða fór á morguninn hafi þeir hins vegar einungis verið tveir. Þá hafi fólk séð að minnsta kosti einn mann fluttan á brott í járnum.