Nú eftir hádegið var að færast kyrrð yfir höfnina á Fáskrúðsfirði og virðist sem hin umfangsmikla lögregluaðgerð, sem staðið hefur yfir síðan snemma í morgun vegna fíkniefnafundar í skútu í höfninni, sé að mestu í rénum. Upplýst var í dag, að tugir kílóa af fíkniefnum hefðu fundist í skútunni í morgun.
Lögregla er nýfarin af staðnum með fíkniefnahund sem notaður var til að leita að efnum í skútunni og sömuleiðis virðist leit kafara í firðinum vera búin. Varðskip Landhelgisgæslunnar liggur við hafnarbakkann og er þar lögregluvakt um borð.
Fram kom hjá Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á blaðamannafundi í dag, að sennilega væri um að ræða mesta magn fíkniefna í einu máli hérlendis. Umfangsmesta málið til þessa kom upp á síðasta ári þegar reynt var að smygla á þriðja tug kílóa af amfetamíni og hassi í bensíntanki bíls frá Hollandi. Fjórir menn voru í héraðsdómi dæmdir í 4-8½ árs fangelsi fyrir það.