Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið af bótakröfu trésmiðju, sem keypti húseignina Borgartún 6 af ríkinu árið 2004. Húsið reyndist við mælingu eftir kaupin minna en gefið var upp í kaupsamningi. Kaupverðið var 280 milljónir króna en ítrasta bótakrafan hljóðaði upp á 67,4 milljónir.
Þegar Trésmiðja Snorra Hjaltasonar hf. keypti Borgartún 6 var húsið talið 5210,9 m² að stærð samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins. Við mælingu, sem trésmiðjan lét gera á eigninni eftir kaupin, kom í ljós að hún var 4735,2 m² eða 9,13% minni en uppgefið var við kaupin.
Trésmiðjan krafðist skaðabóta. Hæstiréttur taldi m.a., að leggja þyrfti til grundvallar þá skýringu ríkisins á stærðarmismuninum, að hann mætti rekja til breyttra reglna um útreikning á stærð húseigna. Þá vísaði rétturinn til þess, að kaupandinn væri byggingarfyrirtæki og fyrirsvarsmaður þess, sem skoðað hafði húseignina, væri byggingarfróður. Þar sem eignaskiptayfirlýsing hefði ekki legið fyrir og húseignin hefði lengi verið í eigu sama aðila hefði hann mátt gera sér grein fyrir að athuga þyrfti upplýsingar um stærð eignarinnar.
Var trésmiðjan ekki talin hafa sýnt fram á, að eignin hefði í þessum viðskiptum verið haldin galla sem gæfi félaginu rétt til skaðabóta eða afsláttar.