Óþekkt skúta kom til hafnar á Fáskrúðsfirði í september árið 2005 og voru ungir Íslendingar um borð í henni, sem báðu konu sem þeir hittu um að fá að hringja hjá henni. Mennirnir hurfu svo á braut úr bænum en skildu eftir skútuna, sem svo var ekki sótt fyrr en í maí á síðasta ári.
Blaðamanni Morgunblaðsins hefur ítrekað verið greint frá því í dag á Fáskrúðsfirði að þetta sé vart í fyrsta skipti sem fíkniefni hafi verið flutt með þessum hætti inn til landsins í gegn um Fáskrúðsfjörð og minnast menn þá á þessa sögu.
Sögunni fylgir að þegar skútan hafði verið þar í fleiri daga og enginn vitjað um hana, hafi heimamenn farið um borð og séð m.a. að engin voru í henni siglingakortin, en mikið af mynddiskum og fleiru til afþreyingar.
Skútan var svo flutt eftir einhvern tíma í smábátahöfnina á staðnum og var þar um veturinn og stóð til að bjóða hana upp. Skútunni var hins vegar siglt burt í maí 2006 og höfðu þá verið greidd af henni hafnargjöld. Hún var sögð hafa komið frá Noregi, en ekki er um sömu skútu að ræða og kom til Fáskrúðsfjarðar með fíkniefni innanborðs í morgun.