Umfangsmikið fíkniefnamál á Fáskrúðsfirði

Skútan, sem málið snýst um, við hlið varðskips í Fáskrúðsfjarðarhöfn …
Skútan, sem málið snýst um, við hlið varðskips í Fáskrúðsfjarðarhöfn í morgun. mbl.is/Jónína Guðrún

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu boðar til blaðamannafundar í dag, klukkan 11.30 að Hverfisgötu 113. Efni fundarins er lögregluaðgerð sem ráðist var í á Austurlandi fyrr í morgun. Samkvæmt heimildum Fréttavefjar Morgunblaðsins er um umfangsmikið fíkniefnamál að ræða en ekki er ljóst um hve mikið magn af fíkniefnum fundust við leit í skútu í höfninni á Fáskrúðsfirði í morgun.

Eins og fram hefur komið á Fréttavef Morgunblaðsins stóð mikil lögregluaðgerð yfir á Fáskrúðsfirði í morgun eftir að skúta kom þar til hafnar snemma í morgun. Engar upplýsingar hafa fengist um málið hjá lögreglu á staðnum eða embætti ríkislögreglustjóra en samkvæmt upplýsingum Alberts Kemp, fréttaritara Morgunblaðsins á staðnum, er greinilega um stórmál að ræða. Þá segir hann að varðskip hafi komið til hafnar í morgun og að skútan hafi verið færð að borðstokk þess. Kafarar hafi sést í höfninni og einnig telji sjónarvottar að fjórir ómerktir lögreglubílar hafi verið á hafnarsvæðinu í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert