Valnefnd valdi Önnu Sigríði Pálsdóttur í starf Dómkirkjuprests

Anna Sigríður Pálsdóttir
Anna Sigríður Pálsdóttir mbl.is/Kristinn

Valnefnd í Dómkirkjuprestakalls ákvað á fundi sínum í gærkvöldi að mæla með Önnu Sigríði Pálsdóttur í embætti Dómkirkjuprests. Anna Sigríður staðfesti þetta í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Er hún fyrsta konan sem gegnir embætti Dómkirkjuprests. Biskup Íslands skipar í embættið til fimm ára að fenginni umsögn valnefndar.

Að sögn Önnu Sigríðar hafa konur áður verið ráðnar í ákveðin verkefni hjá Dómkirkjunni en kona hefur aldrei verið ráðin Dómkirkjuprestur. Anna Sigríður er sóknarprestur í Grafarvogskirkju.

Sjö sóttu um embætti prests í Dómkirkjuprestakalli. Umsækjendur voru auk Önnu, sr. Ása Björk Ólafsdóttir, sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir, sr. Guðrún Karlsdóttir, dr. theol. Rúnar M. Þorsteinsson, cand. theol. Sigríður Hrönn Sigurðardóttir og sr. Þórhildur Ólafs.

Eins og áður segir skipar biskup Íslands skipar í embættið til fimm ára að fenginni umsögn valnefndar. Í valnefnd sitja níu fulltrúar prestakallsins auk prófasts Reykjavíkurprófastsdæmis vestra og vígslubiskupsins í Skálholti. Embættið veitist frá 1. október 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert