Mótmæla áformum um að leggja niður mjólkurvinnslu á Egilsstöðum

Stjórn Búnaðarsambands Austurlands (BsA) hefur sent frá sér ályktun þar sem mótmælt er harðlega þeim tillögum sem stjórn MS hefur lagt fram um að leggja niður mjólkurvinnslu á Egilsstöðum. Segir í ályktuninni, að með þessu sé vegið að landbúnaði sem atvinnugrein í heilum landsfjórðungi.

Segist stjórn BsA óttast, að með því að hætta fullvinnslu mjólkur veikist staða landbúnaðar á svæðinu og erfiðara verði að halda úti fullnægjandi þjónustu við atvinnugreinina og þannig dragi úr eðlilegri framþróun.

Þá segir stjórnin, að í nafni hagræðingar hafi á síðustu árum verið lagðar niður tvær mjólkurstöðvar á starfssvæði BsA, í Neskaupsstað og á Vopnafirði. Framleiðsla af þessum svæðum hafi í auknum mæli verið að færast yfir á Fljótsdalshérað og nær núverandi mjólkurstöð. Bændur hafi lagt metnað sinn í að halda uppi framleiðslu þannig að áfram verði grundvöllur fyrir rekstri samlagsins á Egilsstöðum eins og lofað var við samruna við MBF.

„Þessi þróun í framleiðslu mjólkur sýnir okkur hvað muni gerast hér á næstu árum ef mjólkurstöðin verður lögð niður og mjólkinni ekið til vinnslu og pökkunar í aðra landshluta," segir m.a. í ályktun stjórn BsA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert