Enn meiri seinkun verður á afhendingu orku frá Kárahnjúkavirkjun en hingað til hefur fengist staðfest. Fram kom í fréttum Útvarpsins að forsvarsmenn Landsvirkjunar tali nú um að virkjunin verði gangsett í nóvember. Í sumar var boðað, að virkjunin kæmist í notkun í september eða október.
Útvarpið segir ástæðu seinkunarinnar vera þá, að aðrennsinsgöng Kárahnjúkavirkjunar hafi gengið mun hægar en áætlað var. Upphaflega var gert ráð fyrir að fyrsta vél Kárahnjúkavirkjunar yrði ræst með vatni úr Hálslóni í apríl síðastliðinn.
Fram kemur á Kárahnjúkavef Landsvirkjunar, að litlu meira renni nú inn í Hálslón en það sem úr því fari um botnrás Kárahnjúkastíflu. Vatnsborð Hálslóns var í gær komið í 622,6 metra yfir sjávarmáli og hefur einungis hækkað um tæplega 3 sentimetra á sólarhring að meðaltali undanfarna viku.
Tappað er af lóninu eins og þarf til að hægja á fyllingu þess, annars vegar af öryggisástæðum og hins vegar til að tryggja að lokið verði við frágang rennunnar fyrir yfirfallsvatn út í Hafrahvammagljúfur. Gert er ráð fyrir að lónið verði ekki látið fyllast fyrr en eftir mánaðarmótin september-október.