Eigendur jarðarinnar Skálmholtshrauns í Flóahreppi hafa slitið viðræðum við Landsvirkjun um hugsanlegar bætur vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár. Leggjast landeigendurnir alfarið gegn framkvæmdinni, að því er kemur fram í bréfi sem lögmaður þeirra hefur sent stjórn Landsvirkjunar.
Fram kemur í bréfinu, að verði af framkvæmdunum muni stór stíflugarður rísa á jörðinni og hluti hennar fara undir vatn.
Lögmaðurinn segir að viðræður hafi staðið yfir við Landsvirkjun í sex ár án þess að viðunandi niðurstaða hafi fengist. Þá hafi eigendur jarðarinnar kynnt sér rannsóknarniðurstöður sérfræðinga og fyrirliggjandi gögn. Þeir telji öryggi framkvæmdarinnar ekki tryggt og afleiðingar afar óljósar, hvort heldur af lóninu sjálfu eða þeirri hættu sem fylgi staðsetningu þess á virkasta jarðskjálftasvæði landsins.
Ýmis fleiri atriði, jarðfræðilegs, umhverfislegs og lögfræðilegs efnis, komi einnig til álita, svo sem réttindi og skyldur Landsvirkjunar.