Leikskólaráð Reykjavíkurborgar vill endurskoða hlutverk gæsluleikvalla svo betur megi koma til móts við þarfir barnafjölskyldna. Tillaga meirihlutans þess efnis var samþykkt samhljóða á fundi leikskólaráðs.
Í tilkynningu kemur fram að hún felur í sér að stofnaður verður starfshópur með það verkefni að kanna eftirspurn, nýtingu og kostnað við rekstur gæsluleikvalla.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður leikskólaráðs segir í fréttatilkynningu: „Hugmyndafræði gömlu gæsluleikvallanna hefur runnið sitt skeið á enda, enda fara nær öll börn í leikskóla. Hins vegar er þörf á góðum leikvöllum og líklegt að ný hugmyndafræði um gæsluleikvelli og starfsemi þeirra geti nýst við endurgerð leiksvæða í borginni. Það er tímabært að greina þarfir foreldra og leggja í kjölfarið fram hugmyndir að nýrri kynslóð gæsluleikvalla."