Stjórn félagsins Torfuness Blæs ehf. hefur segir að stóðhesturinn Blær frá Torfunesi hafi sætt slæmri meðferð í girðingu á Suðurlandi þar sem hann tók á móti hryssum. Fram kemur í yfirlýsingu frá stjórninni, að málið hafi verið tilkynnt til dýraverndunaryfirvalda og verði rekið í þeim farvegi.
Að sögn Baldvins Kr. Baldvinssonar, eins af eigendum félagsins, er hesturinn ekki veikur og étur vel en það geti tekið langan tíma fyrir hann að ná fyrra þreki og þoli.
Baldvin sagði, að það sé samræmi við dýraverndarlög og búfjárlög að tilkynna málið til dýraverndunaryfirvalda. Það sé síðan ákvörðun dýralækna, sem fjalla um málið, hvort farið verði með það lengra.
Í yfirlýsingu Torfuness Blæs ehf. segir að hesturinn hafi staðið langefstur í A-flokki gæðinga á fjórðungsmóti á Austurlandi í sumar og vakið þar mikla athygli fyrir afköst á gangi, kraftmikla framgöngu og glaðan vilja. Að öllu jöfnu hafði verið stefnt með hestinn til keppni í A-flokki gæðinga á komandi landsmóti.
Nú sé hesturinn í mjög slæmu ástandi. Í skýrslu dýralæknis segi m.a. að hesturinn hafi dapur augu og standi og hími. Hesturinn sé horaður og fallinn á makka, baki og lend. Hægt sé að sjá nær öll rif og hálsinn sé eins og á veturgömlu trippi. Bak og lendarvöðvar mjög rýrir. Jafnframt komi fram að veikindi hestsins hafi verið útilokuð og ástandið sé alfarið vanfóðrun um að kenna. Umtalsvert tjón sé fyrirsjáanlegt fyrir aðstandendur hestsins en þó hér fyrst og fremst um að ræða mál um illa meðferð á dýrum.
Blær frá Torfunesi var í girðingu á vegum félagsins Fola.is. Í tilkynningu frá félaginu, sem Óðinn Örn Jóhannsson skrifar undir og birtist nýlega á vefnum hestafrettir.is, segir m.a. að Blær hafi verið í slæmu fóðurástandi í lok tímabilsins og segist Óðinn Örn taka fulla ábyrgð á því. „Það er að sjálfsögðu ekki gott en ég tel ástæðuna vera vanmat mitt á holdafari hans (hrossin stóðu af sér haustrigningarnar síðustu tvær vikurnar í kipring öll saman í hnapp), hann hafði flestar hryssur af þeim hestum sem voru á mínum vegum í sumar," segir í tilkynningunni.