Við lá að árekstur yrði milli skútunnar, sem notuð var til að smygla tugum kílóa af amfetamíni til landsins og línubátsins Kristínu GK norður af Hvalbak í fyrrinótt. Ólafur Óskarsson, skipstjóri á Kristínu, segir við Fréttablaðið í dag að skútan hefði siglt með síðunni á bátnum.
Ólafur segir við blaðið, að skútan hafi stefnt beint á bátinn. Skipverjar á Kristínu lýstu skútuna upp með ljóskösturum og vikið bátnum undan til að forðast árekstur. Skútan hafi haldið óbreyttri stefnu og stöðugri ferð allan tímann og enginn hafi sést ofan þilja.
Tveir menn sigldu skútunni. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag, að skútan hafi verið tekin á leigu í Noregi og verið siglt hingað með viðkomu í Danmörku og Færeyjum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er um vana sjómenn að ræða, sem hafa áður komist í kast við lögin – þó ekki fyrir viðlíka brot.