Óánægja kom fram með forustu Frjálslynda flokksins á fundi, sem almennir flokksmenn héldu í gærkvöld. Fram kom í fréttum Útvarpsins að um 40 manns voru á fundinum, þar á meðal flestir forystumenn flokksins.
Á fundinum kom að sögn Útvarpsins m.a. fram óánægja með að Sigurjóni Þórðarsyni, fyrrverandi þingmanni, skyldi ekki boðin staða framkvæmdastjóra flokksins, eins og honum hefði verið lofað.
Sigurjón segir sjálfur á heimasíðu sinni, að hann ætli að draga sig að mestu út úr umræðunni, a.m.k. þangað til Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, verði í aðstöðu til að uppfylla fyrirheit frá aðdraganda síðustu alþingiskosninga um að Sigurjón tæki að sér starf framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins ef markmið næðist ekki í Norðausturkjördæmi.
Útvarpið hefur eftir Guðjóni Arnari á fundinum, að hann muni greina frá niðurstöðu varðandi framkvæmdastjórastarfið á miðstjórnarfundi í næstu viku. hann myndi greina frá niðurstöðunni á miðstjórnarfundi í næstu viku. Hann sagði það hafa verið hlutskipti sitt að sætta menn innan flokksins, hann hefði reynt að stýra flokknum án þess að hann legði upp laupana en að óvíst væri að það gengi endalaust.