Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkti í gær að hætta risarækjueldi og var forstjóra falið að reyna á næstu tveimur mánuðum að finna einhvern aðila til að taka við verkefninu. Haukur Leósson, stjórnarformaður OR, er ekki bjartsýnn á að það muni takast. Búið sé að reyna allt þetta ár að fá nýja aðila til að taka við verkefninu. Mestar líkur séu því á að rækjueldinu verði hætt. Þetta verkefni hefur engum tekjum skilað, en fyrirtækið þarf að afskrifa um 114 milljónir vegna þess.
Borað fyrir 88 milljónir
Orkuveitan samþykkti árið 2000 að leggja 10 milljónir króna í eldi á risarækju. Þá var gert ráð fyrir að 30 milljónir kæmu frá öðrum aðilum. Haukur sagði að Orkuveitan væri eini aðilinn sem hefði lagt fram fjármuni til þessa verkefnis. Auk beinna fjárframlaga hefði fyrirtækið látið bora eftir heitu vatni í landi Bakka í Ölfusi. Holan væri núna nýtt fyrir sveitabæi og sumarbústaði í nágrenninu, auk þess sem hún væri varahola fyrir Þorlákshöfn. Kostnaður við borun þessarar holu nam um 88 milljónum króna.
Sjálft risarækjueldið hefur hins vegar ekki reynst gróðafyrirtæki. "Þessi tilraun hefur engum tekjum skilað, ekki krónu," sagði Haukur. Hann sagði ljóst að Orkuveitan myndi ekki halda þessu verkefni áfram og svo virtist sem aðrir hefðu heldur ekki áhuga á að reyna þetta. Haukur sagði að þó að framhald yrði ekki á þessu verkefni hefði tilraunin leitt í ljós að það væri hægt að ala upp risarækju á Íslandi með því að nota affall frá jarðhitaholu.
Sjá nánar í Morgunblaðinu