Rúmlega sextíu kíló af amfetamíni og e-töflum

Rúmlega sextíu kíló af amfetamíni, e-töflum og dufti til framleiðslu á e-töflum, sem lögreglan haldlagði á Fáskrúðsfirði í gær, komu fyrir almenningssjónir í morgun, þegar fréttamannafundur var haldinn á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík. Lögreglan segir allt benda til að styrkleiki efnanna sé mjög mikill.

Tveir menn hafa verið handteknir í Færeyjum vegna fíkniefnamálsins og hafa þá alls 10 verið handteknir, bæði hér og erlendis og eru allir íslenskir utan einn, sem er Dani.

Mennirnir fimm, sem handteknir voru hér á landi í gær hafa allir komið við sögu lögreglu áður í fíkniefnamálum og eru á þrítugs- og fertugsaldri. Fjórir þeirra voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 18. október og einn í viku.

Húsleitir hafa verið gerðar hér á landi og erlendis á síðasta sólarhring. Fimm húsleitir hafa verið gerðar hér á höfuðborgarsvæðinu og skútu í Sandgerði. Þá á eftir að leita í einum bíl, sem lögreglan er með í sinni vörslu. Fíkniefni fundust í húsleitum í Danmörku og Færeyjum.

Lögreglan segir að með aðgerðunum í gærmorgun sé ákveðnum þætti málsins lokið. Yfirheyrslur eru hafnar bæði hér á landi og erlendis yfir sakborningunum. Rannsóknin snýst nú m.a. um að upplýsa um aðild þeirra sem handteknir hafa verið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert