Þrjátíu feta löng skútan, sem tengist umfangsmikilli lögregluaðgerð á Fáskrúðsfirði í gær, var hífð á vagn til flutnings frá Fáskrúðsfirði í morgun. Skútan var tekin á leigu í Noregi og verið siglt hingað með viðkomu í Danmörku og Færeyjum. Tveir menn sigldu bátnum hingað og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er um vana sjómenn að ræða, sem hafa áður komist í kast við lögin, þó ekki fyrir viðlíka brot.
Allt að 70 kíló af amfetamíni fundust í skútunni í gærmorgun. Rannsókn málsins hefur staðið allt frá síðasta ári en ekki hefur verið greint frá því hvernig lögregla komst á snoðir um áform þeirra sem hlut eiga að máli. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur boðað til fréttamannafundar klukkan 10 í dag þar sem veittar verða frekari upplýsingar um málið.