TR íhugar að birta gjaldskrá tannlækna

mbl.is
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur - ingibjorg@bladid.net

Tryggingastofnun ríkisins, TR, ætlar nú að kanna hvort stofnuninni sé heimilt að veita upplýsingar um verð fyrir þjónustu einstakra tannlækna. Lögfræðingur Persónuverndar, Þórður Sveinsson, kveðst aldrei hafa heyrt talað um að upplýsingar um verð fyrir ákveðna þjónustu eigi að fara leynt.

Formaður Tannlæknafélags Íslands, Sigurjón Benediktsson, segir allt samkeppnisumhverfi í tannlækningum raskast veiti Tryggingastofnun ríkisins upplýsingar um verð hjá tannlæknum.

„Þeir vita ekkert hver verður ódýrastur á morgun. Þar að auki get ég ekki ímyndað mér að starfsfólk Tryggingastofnunarinnar viti nákvæmlega um umfang verka og slíkt þótt það geti lesið einhver gjaldskrárnúmer."

Álagning hjá tannlæknum er frjáls og þess vegna er verðið mismunandi. Fjórfaldur verðmunur getur verið á tannréttingum fyrir verk sem Tryggingastofnun sýnist vera sambærileg. Almennt taka tannréttingar 2 til 3 ár og geta þær kostað frá 250 þúsundum króna til rúmlega 1 milljónar króna þar sem þær eru dýrastar.

Tannlæknum er bannað að auglýsa þjónustu sína og þess vegna hefur verið erfitt fyrir neytendur að komast að því hvar þjónustan er ódýrust.

Nánar í Blaðinu í dag

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert