Erfitt að manna vaktir um helgar

Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is
Mjög erfitt er að manna vaktir lögreglumanna víða um land, sérstaklega um helgar. Þrír menn eru hættir eða eru að hætta í Vestmannaeyjum og tvo menn vantar á Sauðárkróki og a.m.k. einn annar er nálægt því að hætta. Ástandið er erfitt víða um land, en alls vantar 60-80 lögreglumenn til starfa að sögn Björns Mikaelssonar, yfirlögregluþjóns á Sauðárkróki.

Á Sauðárkróki er einn lögreglumaður hættur, og annar er frá í 6-8 mánuði vegna veikinda. Sá þriðji hefur sett húsið sitt á sölu og á kost á starfi á höfuðborgarsvæðinu og fjórði maðurinn hefur einnig haft orð á að hætta. Björn segist vera búinn að reyna mikið að fá menn til starfa en án árangurs.

Björn segir að launakjör lögreglumanna eigi stóran þátt í því hversu erfiðlega gengur að fá menn til starfa. Grunnlaun sumarmanna séu um 135 þúsund á mánuði og þó að menn komist upp í 270 þúsund með vaktavinnu á kvöldin og um helgar séu þetta of lág laun til að freista manna sem eiga kost á betur launaðri vinnu annars staðar. Hann segir að grunnlaun fangavarða og tollvarða séu t.d. hærri en grunnlaun lögreglumanna.

Björn segir að til viðbótar óánægju með laun sé fyrir hendi á Sauðárkróki óánægja meðal lögreglumanna með yfirstjórn lögreglumála á staðnum. Það bæti ekki stöðuna.

Björn segir að þegar hann sé að reyna að manna vaktir um helgar leiti hann til lögreglunnar á Blönduósi og Akureyri. Á báðum þessum stöðum vanti lögreglumenn til starfa. Staðan sé betri á Siglufirði og Ólafsfirði, en menn eigi hins vegar rétt á fríum og það sé ekki hægt að treysta á hjálp þaðan.

Dýrt fyrir ríkið að missa menn úr stéttinni

Í Vestmannaeyjum vantar einn lögreglumann til starfa. Annar hættir störfum í október og sá þriðji hættir í nóvember. Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, segir að tilraunir til að fá menn til starfa hafi engu skilað enn sem komið er.

"Við leysum þetta með auknu álagi á þá sem eru fyrir og með því að hafa færri á vakt. Maður veit ekki hvað menn endast lengi í því. Það er ekki skemmtilegt fyrir menn að eiga aldrei frí um helgar," segir Jóhannes.

Hann telur launakjör lögreglumanna stærstu ástæðuna fyrir því að illa gengur að manna lögregluliðið. Þetta birtist m.a. í því að ekki hafi tekist að fá nægilega marga menn í lögregluskólann í haust. Jafnframt fari margir menntaðir lögreglumenn úr löggæslustörfum og í önnur störf. Hann bendir á að þetta sé dýrt fyrir ríkið því það verji umtalsverðum fjármunum í að mennta lögreglumenn sem fari síðan í önnur störf.

Það eru ekki bara lögregluumdæmi á landsbyggðinni sem eru að auglýsa eftir mönnum til starfa. Sama á við um lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert