Ökumaður sem grunaður var um ölvun reyndi að flýja á tveimur jafnfljótum undan lögreglu eftir að hafa ekið bíl sínum út af í Reykjavík í nótt. Þegar lögreglumennirnir höfðu hlaupið hann uppi reyndist hann viðskotaillur mjög og var settur í handjárn og fluttur fangageymslur. Annar ölvaður ökumaður í borginni ók bíl sínum á girðingu í nótt.
Lögreglan hafði veitt athygli bíl sem ekið var yfir á rauðu ljósi á mótum Sæbrautar og Skeiðarvogs, ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum en svo fór að hann ók útaf á Skeiðarvogi. Sem fyrr segir náðist hann á hlaupum. Annar ölvaður ökumaður ók á girðingu á Rauðarárstíg, og var bíll hans óökufær á eftir. Alls voru níu teknir fyrir meintan ölvunarakstur í borginni í nótt.
Þá voru 14 teknir fyrir brot á lögreglusamþykkt. Þeir voru ýmist sektaðir á staðnum eða fá send sektarboð. Þrír voru fluttir í fangageymslur þar sem þeir voru enn, nú í morgun, sofandi úr sér vímuna.