Það vantar gagnrýnið samfélag

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins,
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, mbl.is/Sverrir
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur - kolbrun@bladid.net

„Auðvitað er það stórmál hvernig menn ætla að ráða við þensluna og verðbólguna og varðveita krónuna. En ef krónan stenst ekki þetta opna samfélag þá verðum við að horfa til annarra átta og þar eigum við ýmsa möguleika. Ég efast um að evran henti okkur en fyrst og fremst verður þetta að vera pólitískt úrlausnarefni án þess þó að menn rasi um ráð fram. Auðvitað er krónan að virka. Hún flöktir og bregst við ástandinu og reynir að stramma samfélagið af. Það þýðir ekkert að skamma krónuna," segir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins í viðtali við Blaðið.

Guðni segir stærsta vandamálið sem Íslendingar glíma við ekki snúa að krónunni heldur þenslunni.

„Ég er sannfærður um það að einn af stóru þáttunum sem orsaka verðbólgu og háa vexti er allar þessar gríðarlegu íbúðabyggingar sem trúlega eru að hluta til byggðar á fölskum forsendum eða tilbúnum væntingum. Einn daginn kemur maður til höfuðborgarinnar og þar er risið nýtt hverfi. Búið er að byggja 1000 íbúðir umfram þarfir á höfuðborgarsvæðinu. Ég fer á milli Selfoss og Hveragerðis og þar er verið að mæla fyrir 1000 manna þorpi milli þessara stóru staða. Hverjir ætla að búa þarna? Við erum að byggja yfir þjóð sem ekki er til í landinu. Svo virðist sem lögmálin um framboð og eftirspurn hafi verið tekin úr sambandi hér á suðvesturhorninu og þar bera bankar ábyrgð og byggingaverktakar. Þeir hafa búið sér til nýjan millilið sem eru fasteignafélögin sem liggja nú með umframframboð á íbúðarhúsnæði á lager til að halda íbúðaverði háu. Hvað gerist þegar kreppir að og erlenda vinnuaflið hverfur úr landinu? Hér getur allt gerst.

Í opnu samfélagi gengur heldur ekki upp það séríslenska fyrirbæri að binda allar skuldir í verðtryggingu þannig að fólk borgi skuldir sínar þrefaldar og fjórfaldar. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við komumst undan verðtryggingu án þess að brenna upp sparifé hins sparsama manns. Bankakerfið er að rótgræða á Íslendingum. Það er mikið pólitískt verkefni að komast frá verðbólgunni og verðtryggingunni í leiðinni."

Nánar í viðtali Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Guðna í Blaðinu í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert