Íslenska strandlengjan verður aldrei vöktuð á þann hátt, að ekki takist á einn eða annan veg að laumast þar í land. Auðvitað er unnt að draga úr líkum á því með auknu rafrænu eftirliti með ratsjám eða gervitunglum. Þetta kemur fram í pistli Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, um fíkniefnafund í skútu á Fáskrúðsfirði.
„Fíkniefnafundurinn á Fáskrúðsfirði 20. september er ekki upphaf endaloka smygls á þessum ófögnuði til landsins. Engum er það betur ljóst en þeim, sem vinna að því að framfylgja lögum á þessu sviði. Á hinn bóginn er fráleitt og beinlínis ómaklegt að gera lítið úr þeim árangri, sem þarna náðist, af því að aðrir eigi eftir að sigla í kjölfar smyglaraskútunnar. Þeir eiga vonandi einnig eftir að lenda undir manna höndum.
Nýlega var ég á fundi með Þórarni Tyrfingssyni, yfirlækni á Vogi, hjá félagsskapnum Heiðursmönnum, sem stendur á bakvið SÁÁ og veitir samtökunum ómetanlegan stuðning. Þórarinn flutti ræðu og sagði, að neysla fíkniefna væri að vaxa eftir lægð fyrir fáeinum árum. Ég sagði þetta koma heim og saman við skoðun mína eftir viðræður við lögregluna á grundvelli athugana hennar. Spurning væri, hvort fíkniefnasölum hefði tekist á ná forskoti gagnvart tolli og lögreglu.
Ég sagði rangt að líta þannig á, að breytingar á lögreglunni undanfarin misseri, byggðust alfarið á því, að Íslendingar stæðu frammi fyrir ógn af hryðjuverkum. Ég hefði hafið umræður um þessi mál á þann veg á vettvangi lögreglunnar, að setja ætti hryðjuverkamenn og fíkniefnasala í sama dilk. Rannsóknir sýndu, að hryðjuverkamenn hefðu lært að skipuleggja sig af fíkniefnasölum – það er að byggja upp marga hópa og gæta þess að slá þannig skjaldborg um höfuðpaurinn eða höfuðpaurana, svo að aldrei næðist til þeirra.
Þetta er í raun hið hefðbundna mafíu-skipulag, þar sem fótgönguliðum er miskunnarlaust fórnað, svo að höfuðpaurarnir geti notið frelsis. Til að brjóta þetta skipulag á bak aftur þarf lögregla á Íslandi að beita nýjum og óhefðbundnum aðgerðum. Skipulagsbreytingar á löggæslu undanfarin misseri hafa tekið mið af þessu, þær miðast við hvers konar skipulagða glæpastarfsemi og fíkniefnafundurinn á Fáskrúðsfirði sýnir árangurinn af því að stilla strengi saman á nýjan hátt bæði heima og erlendis.
Í aðgerðinni var ekki aðeins byggt á íslenskum lögreglumönnum heldur var náið samstarf við aðrar þjóðir fyrir milligöngu Europol, Evrópulögreglunnar. Þá létu færeysk lögregluyfirvöld að sér kveða og danski flotinn lagði til herskipið Triton en varðskipið Ægir tók við af því, þegar skútan Polstar nálgaðist Ísland. Þetta eftirlit á hafi var nauðsynlegt til að sjá til þess, að ekki tækist að lauma fíkniefnum óséð í aðra báta.
Íslenska strandlengjan verður aldrei vöktuð á þann hátt, að ekki takist á einn eða annan veg að laumast þar í land. Auðvitað er unnt að draga úr líkum á því með auknu rafrænu eftirliti með ratsjám eða gervitunglum.
Strandgæsla til að útiloka ólögmæta landtöku er ekkert einfalt mál eins og best sannast á Miðjarðarhafi, þar sem ekki tekst að hefta straum ólögmætra innflytjenda frá Líbýu til ítölsku eyjarinnar Lampedusa eða til Möltu, svo að dæmi séu tekin. Nú á þessu ári hefur nýr straumur myndast frá Alsír til Sardiníu, en talið er, að þeir, sem þá leið fara, vilji komast til Frakklands.
Ólöglegum innflytjendum til Kanaríeyja frá Afríku hefur fækkað á þessu ári, eftir að samstarf tókst milli spænskra stjórnvalda og stjórnvalda í strandríkjum Afríku næst eyjunum.
Frönsk stjórnvöld telja, að unnt sé að herða enn aðgerðir á Miðjarðarhafi með öflugum ratsjám og er ekki ólíklegt, að ráðist verði í umbætur á því sviði, þótt mestu sé talið skipta að leita upphafs vandans, sem er fyrir sunnan Norður-Afríkulöndin, þar sem allt logar í vandræðum. Auk þess verði ríki að fylgja brottvísunarreglum af meiri þunga.
Norðmenn og Kanadamenn eru í samstarfi við Kongsberg fyrirtækið norska, sem er með þeim fremstu í heimi í hönnun og smíði búnaðar fyrir ratsjáeftirliti, neðansjávareftirliti, loftvarnareftirliti, loftvarnarflaugakerfi sjávareftirlit, strandeftirlit og svo hugbúnað og stjórnkerfi fyrir allan þennan búnað.
Snýst þetta samstarf Norðmanna og Kanadamanna um eftirlitskerfi úr gervihnöttum, sem þýðir að allur hafflöturinn verði undir stöðugu eftirliti öllum stundum.
Er sjálfsagt fyrir okkur Íslendinga eins og aðrar þjóðir að fylgjast náið með því, sem þarna er að gerast. Hitt er síðan sérstakt athugunarefni, hvort nýta má búnað ratsjárstofnunar til að fylgjast með því, sem gerist á haffletinum og rétt fyrir ofan hann umhverfis landið. Er eðlilegt að þetta sé á einni hendi, en þannig má ná mikilli hagræðingu í rekstri og samnýtingu á samskiptaleiðum, tæknimönnum og starfsaðstöðu.
Tæknin er sífellt að þróast og auðvelda stöðugt eftirlit nær og fjær. Hún er hins vegar til lítils gagns, sé ekki fyrir hendi þekking til að vega og meta upplýsingar eða beina upplýsingaöflun í markvissa átt og samhæfa krafta í sama skyni. Á þennan stefnu- og forystuþátt reyndi hjá lögreglu í marga mánuði, áður en kom að atburðunum í Fáskrúðsfjarðarhöfn 20. september," segir Björn Bjarnason í pistli á vef sínum.