Bændur á Suðurlandi telja miklar breytingar hafi orðið á búsetumálum

70% bænda á suðurhluta landsins telja miklar eða mjög miklar breytingar hafi orðið á búsetu á svæðinu. Enginn munur var viðhorfum íbúa á norðurhluta landsins til þess hvort breytingar hafi orðið á búsetu á þeirra svæði. Þetta kemur fram í könnun sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Bifröst hefur unnið fyrir Bændasamtökin.

Í fréttatilkynningu kemur fram að á Búnaðarþingi 2006 var ákveðið að kanna og greina þróun eignarhalds á bújörðum og meta samfélagsleg áhrif hennar til sveita. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst var falin framkvæmd rannsóknar á þeim þáttum sem lutu að samfélagslegum áhrifum og liggja þær niðurstöður nú fyrir. Markmiðið var að kanna viðhorf jarðaábúenda til breytinga á eignarhaldi jarða undanfarin ár og hvaða áhrif þeir telji að sú þróun hafi haft á sveitir landsins.

Gerð var póstkönnun og spurningalisti sendur út til ábúenda jarða. Endanlegt úrtak var 804 einstaklingar og svör bárust frá 468, sem er 58,2% svarhlutfall. Að auki voru tekin viðtöl við 14 einstaklinga vítt og breitt um landið.

Vegna eftirspurnar þéttbýlisbúa eftir landi hefur jarðarverð hækkað mun meira á Suður- og Vesturlandi en í öðrum landshlutum. Áhrif frístundabúsetu eru því önnur og meiri á suðurhluta landsins heldur en á Norðurlandi.

72% bænda telja að breytingar á eignarhaldi jarða síðastliðin 10 ár hafi haft áhrif á búsetu í sveitum. Helstu breytingarnar eru félagslegar. Þar ber helst fólksfækkun í sveitum sem hefur þau áhrif að félagsleg staða þeirra veikist, jarðir fara í eyði og erfiðara er að sinna almennri þjónustu. Þetta hefur þau áhrif að erfiðara er með samhjálp, girðingamál, smalanir, göngur og fjallskil.

Breytingar á eignarhaldi virðast hafa jákvæðari áhrif á sunnanverðu landinu en norðanverðu. Eigendur jarða sem ekki stunda hefðbundinn landbúnað eru mun líklegri til þess að verja stærri hluta ársins á jörðum nær höfuðborgarsvæðinu, byggja þar upp og framkvæma. Þannig eru 47% svarenda mjög eða frekar sammála því að tvöföld búseta skapi störf í kringum þjónustu í sveitinni, 35% eru mjög eða frekar sammála því að fjölbreytni atvinnulífs hafi aukist. 31% eru sammála því að verslun hafi styrkst vegna tvöfaldrar búsetu og 28% telja að tekjumöguleikar þeirra sem fyrir eru hafi aukist með breyttu eignarhaldi á jörðum.

Afstaða bænda er skýr, þeir vilja halda áfram búskap og það skiptir þá miklu máli að sveitirnar séu í byggð. 92% svarenda telja mjög eða frekar mikilvægt að búseta sé á nágrannajörðum þeirra. Mikill meirihluti telur að mikilvægt sé að landbúnaður sé stundaður á nágrannajörðum. Meirihluti svarenda telur neikvætt að einn aðili eigi margar jarðir. Einnig kom fram í könnuninni að bændur hafa áhyggjur af því ef aðgangur að landi fyrir landbúnað skerðist í framtíðinni. Mikill meirihluti svarenda var sammála því að ávallt eigi að tryggja land fyrir landbúnað, samkvæmt tilkynningu frá Bændasamtökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert