Dauðagildrur fundust í miðborginni

Þessum neyðarútgangi í miðbænum hafði verið læst.
Þessum neyðarútgangi í miðbænum hafði verið læst. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
Eftir Gunnar Pál Baldvinsson

gunnarpall@mbl.is

Það sem gerist þegar flóttaleiðum er læst er að þá skapast hætta á stórslysi. Þetta er í raun og veru vítaverð og glórulaus ósvífni veitingamanns við sína gesti sem eiga að geta farið og skemmt sér, öruggir í þeirri vissu að þarna sé allt í lagi eins og annars staðar." Þetta segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnasviðs Slökkviliðs höfuðborgarsviðs, en starfsmenn slökkviliðsins slógust í för með lögreglu aðfaranætur föstudags og laugardags og sinntu eldvarnaeftirliti á skemmtistöðum.

Á þeim 19 skemmtistöðum sem farið var á voru gerðar athugasemdir við flóttaleiðir á átta stöðum. Á fjórum þeirra voru gerðar alvarlegar athugasemdir þar sem merktar flóttaleiðir voru mjög torfærar. Á einum skemmtistað hafði neyðarútgangi verið læst með lykli. Bjarni segir að erlend dæmi sýni að einhver þau mestu brunaslys sem verði séu þegar kvikni í á fjölmennum stöðum þar sem flóttaleiðum hafi verið lokað. "Yfirleitt heldur fólk ró sinni á meðan hús eru rýmd en ef útljós leiðir það eftir þröngum gangi og svo kemur það að harðlæstum dyrum, þá getur það verið komið í algjöra sjálfheldu. Á þessum tíma er reykurinn orðinn það mikill að það kemst ekki til baka. Það bara deyr!"

Í fjórum tilfellum gerðu eftirlitsmenn athugasemdir við það hvernig aðstaða fyrir reykingafólk var skipulögð. Segir Bjarni að þær ráðstafanir sem margir staðir hafi gert séu til þess fallnar að torvelda rýmingu staðanna. "Við gerðum athugasemdir og menn tóku vel í þær og þetta var yfirleitt lagfært á staðnum í samvinnu við okkur."

Lögreglumenn hófu átak í eftirliti með umgengni og meðferð áfengis á skemmtistöðum um síðustu helgi og héldu því áfram um helgina. Forsjármenn 12 staða fengu munnlega áminningu. Auk ágalla á brunavörnum voru m.a. gerðar athugasemdir við sóðaskap utan við staðina og að gestir færu með áfengi út af stöðunum.

Í hnotskurn
» Gerðar voru athugasemdir við eldvarnir átta skemmtistaða um helgina
» Alls gerði lögregla athugasemdir á 12 skemmtistöðum. Bæði við eldvarnir og einnig meðferð áfengis og almenna umgengni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka