Útgerðarfyrirtækið Samherji hefur tilkynnt lokun skreiðarvinnslu sinnar á Hjalteyri en starfsstöðin er stærsti atvinnuveitandinn í Arnarneshreppi. Að sögn Axels Grettissonar oddvita kemur þetta sér illa fyrir Hjalteyri bæði vegna þess að 8 til 10 manns missa vinnuna og húsaleigusamningi við hreppinn mun að öllum líkindum verða sagt upp.
Vinnslan hefur farið fram í húsnæði gömlu síldarvinnslunnar sem er í eigu hreppsins. Axel sagði að einhverjir hefðu sýnt því áhuga að leigja verksmiðjurnar en ekkert væri fast í hendi.
Starfsfólkinu hefur að sögn verið boðin vinna hjá Samherja á Dalvík í vetur og akstur þangað en ekkert víst um framhaldið.
Ekki náðist í stjórnendur Samherja sem munu sitja fundi erlendis.