Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, mun ásamt öðrum forsetum þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna heimsækja Georgíu dagana 23.-25. september nk. Í för með forseta verður Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.
Í tilkynningu kemur fram að ferðin er hluti af sameiginlegu verkefni þingforseta landanna og er markmið hennar að styðja við lýðræðisþróunina í Georgíu. Mun m.a. verða rætt um með hvaða hætti þessi þing geti stutt við þjóðþing Georgíu í þeirri þróun.
Þingforsetarnir munu eiga fundi með Saakashvili, forseta Georgíu, Nogaideli, forsætisráðherra, og Burjanadze, þingforseta, og öðrum ráðamönnum. Þá munu forsetarnir jafnframt taka þátt í tveimur pallborðsumræðum um málefni tengd heimsókninni.