,,Veitum þeim vernd” er yfirskrift norræns átaks sem ætlað er að vekja athygli á stöðu hælisleitenda á Norðurlöndum og hvetja stjórnvöld til þess að veita þeim vernd sem leita skjóls gegn vargöld og ofsóknum. Tuttugu félagasamtök í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð hafa tekið höndum saman um þetta norræna átak.
Í tilkynningu frá Mannréttindaskrifstofu Íslands er skorað á ríkisstjórnir landanna að fara að tilmælum og viðmiðunarreglum Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna þegar ákvarðanir eru teknar sem lúta að málefnum fólks á flótta.
Í tilkynningunni segir: „Fyrr á árinu úrskurðaði Mannréttindadómstóllinn að stjórnvöldum í Evrópu beri að hafa hliðsjón af tilmælum Flóttamannastofnunarinnar við ákvarðanatöku varðandi hælisveitingar og mál fólks sem eiga pyntingar eða annað ofbeldi á hættu í heimalandi sínu."
„Fólk sem flýr innanlandsátök, vargöld og gróf mannréttindabrot þarfnast aðstoðar alþjóðasamfélagsins. Í dag er staðan sú að þetta fólk fær ekki þá vernd sem það sækist eftir. Stundum er vístað til þess að ofbeldið sé ekki nægjanlega grimmilegt til að teljast til ofsókna eða þá að fólki tekst ekki að sýna fram á að ofbeldið hafi beinst að þeim persónulega. Það er hlutverk flóttamannastofnunarinnar að aðstoða flóttafólk og við vonum heilshugar að það fólk sem flýr ofsóknir og vargöld fái þá vernd sem það þarfnast, og ber, á Norðurlöndum” segir Erica Feller, Aðstoðarflóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.
Átakið ,,Veitum þeim vernd” stendur frá september fram í desember. Almenningur er hvattur til að taka þátt með því að skrifa undir áskorun til stjórnvalda sem finna má á heimasíðu átaksins www.keepthemsafe.org .