Íslenskur togari færður til hafnar í Noregi

Vilhelm Þorsteinsson í heimahöfn.
Vilhelm Þorsteinsson í heimahöfn. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Togarinn Vilhelm Þorsteinsson EA11 var færður til hafnar í Sortland í Norður-Noregi í gær. Skipstjórinn þarf að gera grein fyrir því hvers vegna hann sendi norsku strandgæslunni ekki lokaskýrslu um afla áður en hann yfirgaf norska landhelgi í síðustu viku. Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri hjá Samherja sem gerir togarann út sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að þetta hefði ekki komið á óvart.

„Það eru mörg ár síðan við vorum þarna við veiðar síðast," sagði Kristján. „Ástæðan er sú að í síðustu veiðiferð var ekki send ein melding sem ber að senda til norsku gæslunnar í lok veiðiferðar og þess vegna vilja þeir fá að rannsaka nánar hvers vegna það var ekki gert," sagði Kristján.

Þegar Vilhelm Þorsteinsson EA11 yfirgaf norsku landhelgina án lokameldingar var íslenskum yfirvöldum gerð grein fyrir þessu áður en skipið kom til Íslands og mun Fiskistofa og íslenska Landhelgisgæslan hafa haft eftirlit með löndun aflans á Neskaupsstað.

Togarinn er við síldveiðar en áður en hann fær að yfirgefa Sortland þarf skipstjórinn að gera lögregluskýrslu um málið og útgerðin þarf að öllum líkindum að greiða tryggingagjald fyrir hugsanlegum sektum vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert