Örykjabandalag Íslands kynnti í dag áherslur sínar vegna fjárlagagerðar og í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Meðal þess sem bandalagið leggur til er hækkun grunnlífeyris, hækkun frítekjumarks og hækkun skattleysismarka, bandalagið telur að komið sé að því að lágtekjufólk, öryrkjar og aldraðir fái að njóta skattalækkana.
Bandalagið vill að grunnlífeyrir örorkulífeyrisþega verði hækkaður í 50.000, en hann er í nú 24.831 á mánuði. Samanlagður grunnlífeyrir og tekjutrygging myndi þá nema 130.000 krónum. Þá er í tillögunum lögð áhersla á einföldun bótakerfisins, og að eftir verði aðeins tveir flokkar, grunnlífeyrir og tekjutrygging.
Þá segir Öryrkjabandalagið rétt að skattleysismörk verði miðuð við launavísitölu, skattleysismörk væru 140.000 nú ef vísitöluþróun launa hefði verið fylgt frá árinu 1988.
. Frítekjumark vill Öryrkjabandalagið að verði hækkað í 900.000 krónur á ári. Segir í tilkynningu að í ljós hafi komið að margir öryrkjar hafi nýtt sér 300.000 króna frítekjumarkið þrátt fyrir að það sé lágt og að með hækkun verði skapaður raunverulegur hvati til atvinnuþátttöku og samfélagslegrar virkni.
Bandalagið minnti á að stefna ríkisstjórnarinnar sé að veita heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Öryrkjabandalagði leggur til að aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu verði tryggt og segir að slíkt verði einungis gert með því að leggja af alla gjaldtöku fyrir opinbera heilbrigðisþjónustu.
Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalags Íslands, gerði á fundinum athugasemdir við hugmyndir um áfallatryggingasjóð. Sigursteinn segir jákvætt að verkalýðshreyfingin vilji efla bótarétt sinna félagsmanna og nota veikindasjóði sem hafa verið að safnast upp. Hins vegar segir hann að öryrkjar telji að sú aðferð sé ekki rétt að að búa til aðgreinandi kerfi, nýtt almannatryggingakerfi, fyrir um.þ.b helming vinnandi fólks í landinu, sem geti mismunað fólki. „Ég tel að réttarstaða fólks inni í kerfi sem stjórnað er af einkaaðilum sé ekki eins örugg og skýr og í almennu opinberu kerfi."
Sigursteinn segir enda unnið, m.a. með sömu aðilum, að gjörbreyttu kerfi og að samstaða sé um að breyta kerfinu verulega til einföldunar. Sigursteinn segir að því sé tímasetningin röng, og að hugmyndafræðin gangi ekki upp heldur.