Fastafulltrúar Íslands og Saó Tomé og Prinsípe hjá Sameinuðu þjóðunum, sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Ovidio Manuel Barbosa Pequeno, undirrituðu í New York, mánudaginn 24. september 2007, yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands ríkjanna.
Eyríkið Saó Tomé og Prinsípe liggur á miðbaug í Gíneuflóa úti fyrir miðri vesturströnd Afríku. Eyjarnar voru portúgölsk nýlenda þar til árið 1975 þegar ríkið varð sjálfstætt. Íbúar eyjanna eru um 200 þúsund, samkvæmt vef utanríkisráðuneytisins.
Fastafulltrúarnir ræddu á fundi sínum möguleika á samstarfi ríkjanna, fyrst og fremst á sviði sjávarútvegs og jarðhita.