Eignarhaldsfélagið Kaupangur hyggst samkvæmt heimildum Blaðsins reisa allt að 40 hæða skrifstofuhúsnæði á Glaðheimasvæðinu í Kópavogi, þar sem hingað til hafa staðið hesthús. Reikna má með því að húsið verði rúmlega 150 metra hátt og því langhæsta skrifstofu og íbúðarhúsnæði á landinu. „Skipulag að Glaðheimasvæðinu liggur ekki fyrir. En ég hef heyrt af þessari hugmynd og mér líst mjög vel á hana," segir Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar.
Hinum megin við götuna, eða á Smáratorgi, er verið að leggja lokahönd á 20 hæða turn sem verður hæsta skrifstofu og verslunarhús á landinu; 78 metra hátt. Þá er bygging 115 metra hás turns sunnan við Smáralind í skipulagsferli, en byggingin er ekki farin í grenndarkynningu.
„Ég held að fleiri turnar sem þessir eigi eftir að rísa á næstu árum, bæði í Kópavogi og annars staðar, enda er þetta góð nýting á landinu," segir Gunnar.
Nánar í Blaðinu