Brot 48 ökumanna voru mynduð á Hringbraut í Hafnarfirði í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið í suðurátt ofan við Flensborgarskóla en þar er 30 km hámarkshraði. Á einni klukkustund, síðdegis, fóru 97 ökutæki þessa akstursleið og því ók tæplega helmingur ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða.
Meðalhraði hinna brotlegu var rúmlega 43 km/klst en sá sem hraðast ók var mældur á 53. Þess skal getið að hraði ökutækjanna var mældur rétt áður en þeim var ekið yfir gangbraut sem þarna er, að því er segir á lögregluvefnum.
Brot 70 ökumanna voru mynduð neðarlega á Suðurbraut í Hafnarfirði í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið í norðurátt á móts við leikskólann Smáralund en þar er 50 km hámarkshraði. Á einni klukkustund, síðdegis, fóru 313 ökutæki þessa akstursleið og því óku 22% ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða.
Meðalhraði hinna brotlegu var tæplega 64 km/klst en sá sem hraðast ók var mældur á 73.
Þess skal getið að hraði ökutækjanna var mældur rétt áður en þeim var ekið yfir gangbraut sem þarna er. Töluvert var af börnum við leik nærri akbrautinni þann tíma sem hraðamæling stóð yfir, að því er segir á lögregluvefnum.