Mjólkursamsalan (MS) hefur hætt við að loka mjólkurmóttöku sinni á Egilsstöðum. Guðbrandur Sigurðsson, forstjóri MS, staðfesti þetta í samtali við Blaðið. Stjórnendur MS tilkynntu í síðustu viku að til stæði að hætta mjólkurvinnslu á Egilsstöðum og að breyta ætti starfsstöðinni í dreifingar og þjónustustöð.
Guðbrandur segir ákvörðunina hafa verið tekna á mánudag. „Við áttum fundi með framleiðendum á svæðinu í síðustu viku og svo er það stjórn félagsins sem tekur þá ákvörðun að koma til móts við sjónarmið félagsmanna á svæðinu um að fara ekki alla leið í þessu hagræðingarferli. Það er samt sem áður krafa frá öllum að við reynum að hagræða til að ná niður vöruverði. Þá verða allar starfsstöðvarnar að fylgja með."
Hjá Mjólkurstöðinni á Egilsstöðum eru fjórtán stöðugildi og 29 framleiðendur leggja inn mjólk þangað. Innlagnir á Egilsstöðum í fyrra námu um 4,7 milljónum lítra, eða um fjórum prósentum af þeim 117 milljónum lítrum sem lagðir voru inn í stöðvar MS á því ári.
Nánar í Blaðinu