Kristján L. Möller samgönguráðherra segir að ekki sé hægt að taka ákvörðun um hvort Faxaflóahafnir sjái um byggingu Sundabrautar að svo stöddu. Töluverða vinnu eigi eftir að vinna áður en hægt sé að taka ákvörðun um það.
Í Morgunblaðinu í gær var haft eftir Birni Inga Hrafnssyni, stjórnarformanni Faxaflóahafna, að hann teldi að málið hefði ekki gengið nægilega hratt fyrir sig hjá samgönguyfirvöldum. Faxaflóahafnir buðust til að annast lagningu brautarinnar í mars síðastliðnum.
Kristján L. Möller segir að það sé ekki svo einfalt mál að ríkisvaldið geti einfaldlega fengið Faxaflóahöfnum verkefnið. "Öll skipulagsvinnan og mat á umhverfisáhrifum eru nú í sínu lögformlega ferli. Þetta tekur sinn tíma því þessi mál eru flókin." Bendir hann á að ekki sé komin niðurstaða um hvar brautin yfir Kleppsvíkina eigi að snerta land. Að sama skapi eigi eftir að rannsaka möguleika á jarðgöngum til fullnustu.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.