Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Róbert Árna Hreiðarsson, 61 árs gamlan héraðsdómslögmann, í þriggja ára fangelsi og svipt hann lögmannsréttindum fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða stúlkunum 2,2 milljónir króna í skaðabætur og 2,6 milljónir króna í sakarkostnað.
Róbert Árni tældi þrjár af stúlkunum með blekkingum og peningagreiðslum til kynferðismaka við sig, en þær voru þá 14 og 15 ára. Hann komst í samband við stúlkurnar í gegnum internetið og í flestum tilvikum sagðist hann vera táningspiltur. Greiddi hann einni stúlkunni að minnsta kosti 32 þúsund krónur fyrir kynferðismök í tvö skipti, sem áttu sér stað í bifreið Róberts.
Alvarlegast var talið samband Róberts við fimmtán ára stúlku, sem stóð yfir í talsverðan tíma. Hafði hann margsinnis við hana samræði og hélt brotunum til að mynda áfram eftir að vera kunnugt um að grunur léki á að hann hefði brotið gegn annarri stúlku.
Einnig var Róbert sakfelldur fyrir að tæla þriðju stúlkuna, sem þá var 15 ára, til að hafa við sig munnmök en fyrir það greiddi hann 14 þúsund krónur auk þess að gefa henni áfengi. Fjórðu stúlkuna reyndi hann ítrekað að tæla til kynferðismaka, m.a. með því að bjóða henni peningagreiðslur. Hún varð hins vegar ekki við óskum hans.
Við leit lögreglunnar í tölvum Róberts fannst einnig töluvert magn af barnaklámi, bæði myndir og myndskeið.
Í niðurstöðu dómsins kemur m.a. fram að af gögnum málsins megi ráða að allar stúlkurnar hafi átt við andlega og félagslega erfiðleika að stríða og var Róberti full kunnugt um það.