Nú er liðið tæpt ár síðan borgarráð hafnaði hugmyndum um mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar og enn lítur ekki út fyrir að nokkuð verði af framkvæmdum, þó svo að gert sé ráð fyrir mislægum gatnamótum í skipulagi og fjármagn til verkefnisins sé til. Íbúar borgarinnar eru orðnir langþreyttir á löngum setum í umferðarhnútum. Íbúasamtökin Betra Breiðholt hafa skorað á borgaryfirvöld að grípa til aðgerða fyrr en síðar.
Haustið 2006 vann Línuhönnun tvær tillögur að því hvernig reisa mætti mislæg gatnamót. Annars vegar var stungið upp á því að vinstribeygjurampur af Reykjanesbraut til norðurs og vestur Bústaðaveg yrði leiddur um undirgöng undir Reykjanesbraut og hins vegar var gert ráð fyrir því að hann yrði tekinn í brú yfir Reykjanesbraut. Borgarráð hafnaði báðum útfærslum, meðal annars vegna þess að þessar hugmyndir krefjast þess að umferðarmannvirkið teygi sig inn í Elliðaárdalinn, sem er á náttúruminjaskrá. Hefðu undirgöng undir götuna krafist þess að minni kvísl Elliðaáanna yrði færð, en þess hefði ekki verið þörf ef sá kostur hefði verið valinn að reisa brú.
Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, segir málið vera í vinnslu. „Hugmyndir voru kynntar á sínum tíma í borgarráði og borgarráð tók ekki vel í þær. Síðan hef ég ekki heyrt af málinu. Það er allavega ekki neitt tilbúið."
Nánar í Blaðinu