Ögmundur Jónasson, formaður BSRB hvatti til þess í ræðuu sem hann flutti á heimsþingi PSI, Samtaka launafólks i almannaþjónustu að auknum kröftum og fjármagni verði varið, á vegum samtakanna til að rannsaka afleiðingar markaðs- og einkavæðingar grunnþjónustu samfélagsins. Nú væri komin reynsla af einkavæðingu undangenginna ára og tími til að vega og meta árangurinn. Þetta kemur fram á vefsíðu BSRB.
Í ræðu sinni sagði Ögmundur að mikilvægt sé að ríkisstjórnir og sveitarstjórnir geri sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það hafi í för með sér þegar haldið sé út á braut einkavæðingar: „Við verðum að koma staðreyndum i þessum efnum á framfæri við heimsbygðina og fylgja málflutningi okkar eftir á afgerandi hátt svo allir geri sér grein fyrir því að barátta okkar er í þágu allra."
Ögmundur hefur setið í stjórn PSI undanfarið kjörtímabil og er í framboði til stjórnar PSI að nýju.