Stjórn Humarvinnslunnar ehf hefur tekið ákvörðun um að segja upp öllu starfsfólki í landvinnslu fyrirtækisins í Þorlákshöfn. Nær uppsögn þessi til 59 starfsmanna fyrirtækisins. Uppsagnarfrestur er mismunandi eftir starfsaldri, á bilinu 1-6 mánuðir.
Fyrr í dag var greint frá því að 35 manns myndu missa vinnuna á Eskifirði þar sem öllum starfsmönnum í frystihúsi Eskju á Eskifirði hefur verið sagt upp í kjölfar skerðingar á þorskkvóta. Sama ástæða er fyrir uppsögnum starfsmanna hjá Humarvinnslunni.
Starfsfólki Humarvinnslunnar ehf. var í tilkynnt á fundi að ákvörðun hefði verið tekin um að segja upp öllu starfsfólki í landvinnslu fyrirtækisins á Þorlákshöfn. Uppsögnin nær til 59 starfsmanna og er ástæðan sögð verkefnaskortur og fyrirsjáanleg versnandi rekstrarskilyrði.
Í tilkynningu frá Humarvinnslunni segir að stórfelldur niðurskurður stjórnvalda á þorskveiðiheimildum muni hafa víðtæk áhrif á starfsemi fyrirtækisins og minnkandi hráefni til vinnslu. Segir að skerðingin nái ekki einungis til hráefnisöflunar fyrirtækisins í þorski heldur verði áhrifin mun víðtækari og muni einnig hafa áhrif á framboð og verðmyndun á öðrum tegundum hráefnis. Þá megi búast við að mun minna verði af kvóta á leigumarkaði sem hafi áhrif á framboð hráefnis.