Fangi á Litla-Hrauni var í Héraðsdómi Suðurlands ekki gert að sæta refsingu fyrir að hafa tekið við 180 steratöflum og 38,79 grömmum af amfetamíni í nóvember í fyrra. Hins vegar voru fíkniefnin gerð upptæk.
Í niðurstöðu dómsins segir að ákærði á langan sakarferil að baki, allt frá árinu 1999. Síðast var ákærði dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar í Hæstarétti þann 14. júní 2007, meðal annars fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Brot þau sem nú var dæmt í framdi hann í nóvember 2006 og er því um hegningarauka að ræða. Með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga er honum ekki gerð frekari refsing í máli þessu. Í 78. grein almennra hegningarlaga segir: „Verði maður, sem búið er að dæma fyrir eitt brot eða fleiri, uppvís að því að hafa framið önnur brot, áður en hann var dæmdur, skal honum dæma hegningarauka, er samsvari þeirri þynging hegningarinnar, sem kynni að hafa orðið, ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu."
Í ákæru kom fram að fanginn hafi veitt viðtöku af ónafngreindum manni 180 metandróstenólon/metandienon töflur með anabólískri verkan sem ákærði vissi eða mátti vita að hefðu verið ólöglega innfluttar og ákærði kom fyrir í pakkningu í endaþarmi sínum auk 2 pakkninga sem ákærði hafði í vörslu sinni á sama tíma og innihéldu samtals 38,79 g af amfetamíni, en pakkningarnar 3 komu í ljós við röntgenmyndatöku af ákærða þann 16. nóvember 2006 eftir að ákærði hafði gefið sig fram við fangelsisyfirvöld eftir strok úr fangelsi þann 14. nóvember.