Framsóknarmenn leggja til að 1,2 milljarðar verði settir í átakssjóð

Siv Friðleifsdóttir, Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir á fundinum í …
Siv Friðleifsdóttir, Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir á fundinum í morgun. Vefur Framsóknarflokksins

Þingflokkur framsóknarmanna kynnti tillögur til mótvægisaðgerða á blaðamannafundi í morgun þar sem hann telur að mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar gangi ekki nærri nógu langt og að þær gagnist ekki þeim sem fyrir mestum áföllum verða við stórfelldan niðurskurð þorskveiðiheimilda.

Þingflokkur framsóknarmanna leggur til að 1200 milljónum króna verði veitt í sérstakan átakssjóð sem atvinnurekendur geta sótt um í, til að greiða starfsmönnum sínum laun á meðan þeir sitja á skólabekk. Gert er ráð fyrir að þeir sem missa vinnuna tímabundið vegna þorskkvótaskerðingar fái þannig tækifæri til að afla sér menntunar og þjálfunar í allt að 4 vikur á launum sem taki hlutfallslegt mið af tekjum þeirra síðustu tvö ár þar á undan. Til viðbótar við 1200 milljóna króna framlag, verði jafnframt 150 milljónum veitt í sjóð sem námskeiðsveitendur geta sótt í.

„Þegar sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin boðaði mjög harkalegan niðurskurð á þorskveiðikvótanum niður í 130 þúsund tonn, þá auðvitað brá mönnum við. Sjávarútvegsráðherra fer að tillögum vísindamanna, en um þetta er auðvitað ágreiningur,“ sagði Guðni.

Framsóknarmenn hafi lagt til að kvótinn yrði 150 þúsund tonn en Landssamband útgerðaramanna hafi viljað að kvótinn yrði 165 þúsund tonn.

„Ef farið hefði verið að tillögum okkar hefðu þessar aðgerðir ekki verið eins harkalegar. Við vöruðum strax við þessum aðgerðum og þær yrðu mjög erfiðar fyrir sjávarbyggðirnar og myndu hafa miklar afleiðingar í för með sér,“ sagði Guðni.

Þetta væri nú allt að koma í ljós og kæmi framsóknarmönnum ekki á óvart þær uppsagnir sem nú blöstu við. „Við teljum að þetta sé í rauninni toppurinn af ísjakanum sem við sjáum nú,“ segir hann. Aðgerðirnar bitnuðu bæði á starfsfólki í fiskvinnslu, sjómönnu og sveitarfélögum. „Það væri mikilvægast fyrir ríkisstjórnina að endurskoða sína ákvörðun,“ sagði Guðni.

„Það undraði mig þegar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar að forsætisráðherrann sjálfur var ekki á þeim fundi og sjávarútvegsráðherrann ekki heldur. Það segir mér að samstaða ríkisstjórnarflokkanna hafi ekki verið mikil um þessi verkefni og kannski varð Sjálfstæðisflokkurinn undir í þessum málum þegar til kom,“ bætti Guðni við. Tilkynning Framsóknarflokksins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka