Hún er glæfraleg aðkoman að Heilsugæslustöðinni í Kópavogi þessa dagana en framan við aðalinngang hússins er verið að ganga frá grunni að þriggja hæða bílastæðahúsi með um 800 bílastæðum. Eins og sést á þessum myndum er heilsugæslustöðin beinlínis á barmi grunnsins, en í gær hrundi úr grunnveggnum við stöðina og þurfti að flytja öryggisgirðingu við vinnusvæðið talsvert nær heilsugæslustöðinni.
Sigríður Pálmadóttir, hjúkrunarforstjóri hjá Heilsugæslunni segir að vissulega hafi það verið óþægileg tilfinning að heyra þetta, og að mikið ónæði hafi verið af framkvæmdunum í sumar, bæði fyrir starfsmenn og þá sem sótt hafa þjónustu heilsugæslustöðvarinnar.
Sigríður segir þó ekki talið að nein hætta sé á ferðum, þá sé aðgengi sjúkrabíla tryggt og að því truflist starfsemi stöðvarinnar ekki. Þá hefur verið unnið að því með stjórnendum Smáralindar að reyna að tryggja að frekara ónæði verði ekki á vinnutíma. Við hlið bílastæðahússins rís senn fimmtán hæða verslunar- og skrifstofuhúsnæði, Norðurturninn og segir Sigríður að eflaust verði nýbyggingarnar glæsilegar þegar við þær verður lokið, en vonandi að framkvæmdirnar kosti ekki slys.