Urgur er í hjúkrunarfræðingum með að fá ekki greitt 30 þúsund króna tímabundið álag á mánuði næsta árið líkt og dómsmálaráðherra hefur ákveðið að gera með sitt fólk, starfandi lögreglumenn. Í kjarasamningum beggja stétta er ákvæði um að slíkar greiðslur séu heimilar og eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær fá lögreglumenn uppbótina m.a. vegna aukins álags í starfi. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) óskaði eftir því við fjármálaráðherra í byrjun mars sl. að heimildin yrði nýtt. Einnig hefur sama ósk verið borin upp við fyrrverandi og núverandi heilbrigðisráðherra. En allt hefur komið fyrir ekki.
Það er engum vafa undirorpið að álag á hjúkrunarfræðinga, m.a. á stærsta vinnustað landsins, Landspítala, hefur aukist mikið undanfarin misseri. Nú vantar tæplega 100 hjúkrunarfræðinga til starfa á sjúkrahúsinu og augljóst að á meðan hlaðast verkefnin á þá sem þar vinna.
Kynbundinn launamunur
En málið hefur einnig aðra hlið. Í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um kynbundinn launamun í þjóðfélaginu eru hjúkrunarfræðingar, sem velflestir eru konur, ósáttir við þessa mismunun. Þó skal því haldið til haga að þeir fagna því af heilum hug að lögreglumenn í landinu fái launauppbót. Þeir eru hins vegar reiðir yfir því að ekki virðist allir sitja við sama borð.
Hjúkrunarfræðingar hafa bent á manneklu í faginu áratugum saman. Í ljósi þessa lagði formaður FÍH sérstaka áherslu á það á fundi með fjármálaráðherra í mars að heimild til álagsgreiðslna í kjarasamningum yrði nýtt til að halda hjúkrunarfræðingum í starfi þar til nýir kjarasamningar verði gerðir í apríl á næsta ári.
Hingað til hafa heilbrigðisráðherrar skýlt sér á bak við það að kjarasamningsgerð sé á hendi fjármálaráðherra. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur nú tekið af skarið og sýnt frumkvæði gagnvart sínum undirmönnum.
Slíkar ákvarðanir eru þó að sögn Björns aldrei teknar öðruvísi en í samráði við fjármálaráðuneytið. „Ég fagna þessu framtaki dómsmálaráðherra,“ segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður FÍH, „en ég tel að þarna sé ólíðandi mismunun í greiðslum og nýtingu á kjarasamningi á milli stétta. Það vekur furðu mína að við fáum engin svör eftir margra ára manneklu og álag, að þá geti dómsmálaráðherra haft algjöra forystu og gripið til þessa.“
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.