Jólabækurnar verða að miklu leyti prentaðar erlendis í ár. Verulegur samdráttur hefur orðið á prentun bóka á Íslandi síðasta áratuginn þótt útgefnum titlum hafi fjölgað. Árið 1998 voru ríflega 2/3 hlutar bóka sem gefnar voru út á Íslandi prentaðir hérlendis. Í fyrra var þetta hlutfall orðið rétt rúmur helmingur samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra bókaútgefenda.
Að sögn Jóhanns Páls Valdimarssonar útgefanda er langstærstur hluti þeirra bóka sem JPVÚtgáfa gefur út prentaður erlendis. „Verðmunurinn á því að prenta bækur hér heima og erlendis er gríðarlegur. Venjuleg skáldsaga er allt að helmingi dýrari prentuð hér heima en erlendis."
Jóhann hefur skipt við Prentsmiðjuna Odda og hefur góða reynslu af þeim. „En það er gífurlegur verðmunur á þeim og prentsmiðjum erlendis. Prentsmiðjur erlendis eru orðnar svo sérhæfðar að þær geta boðið verð sem íslensk fyrirtæki geta ekki keppt við."
Eyþór Páll Hauksson, markaðsstjóri hjá Odda, segir samkeppnina síharðnandi. „Það er ekki víst að menn endist til að halda þessari starfsemi úti þar til hagurinn fer að vænkast."
Nánar í Blaðinu í dag