Uppsagnir fiskvinnslufólks, sem kynntar voru í gær, voru m.a. til umfjöllunar á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Þar var m.a. afgreitt frumvarp um að fella niður veiðigjald í þorskveiðum tímabundið. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði eftir fundinn, að þar hefðu menn rætt þá stöðu sem birtist í þessum uppsögnum en ekki væri hægt að segja að sú staða kæmi að öllu leyti á óvart.
Geir sagði að fyrirtækin væru að búa sig undir aflaskerðinguna og komið hefði fram hjá fiskvinnslufyrirtækjum, að ekki væri víst að allt þetta fólk missi vinnuna heldur væri verið að gera varúðarráðstafanir.
Tvennt skipti máli í því samhengi: Hvernig staðan verður þegar uppsagnarfresturinn rennur út og hvort það geti fengið starf í öðrum atvinnugreinum komi uppsagnirnar til framkvæmda.
Geir sagðist telja að fólk hefði mikla möguleika á að fá aðra vinnu. Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar séu að hluta hugsaðar til þess að byggja upp aðrar atvinnugreinar og fólk geti menntað sig til nýrra starfa.
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, sagði eftir fundinn, að hann harmaði þessa þróun en við þessu hefði mátt búast vegna samdráttar í aflaheimildum.
Einar sagði aðspurður um aðgerðir að þegar hefði verið ákveðið að grípa til mótvægisaðgerða sem búið væri að kynna að þær myndu snerta sjávarútveginn í bráð og lengd. Verið væri að undirbúa frumvarp, sem tæki til ýmissa þátta þeirra, svo sem niðurfellingu veiðigjalds. Vitaskuld gerðu menn sér þó grein fyrir, að almennar stjórnvaldsaðgerðir af þessu tagi myndu aldrei vega upp á móti því óhagræði og tekjubresti, sem yrði vegna minnkandi afla.