Það er ekki mikið við að vera í Hegningarhúsinu í slagviðrinu á haustdögum, enda er garðurinn eina sameiginlega rýmið sem föngum stendur til boða.
Svigrúmið er lítið í þessu húsi sem tekið var í notkun árið 1874, útveggirnir þykkir og húsið friðað að hluta. Reyndar hefur verið hróflað upp fátæklegri líkamsræktaraðstöðu í gömlum fangaklefa og einfaldri eldunaraðstöðu og bókasafni á ganginum.En fyrst og fremst er lagt upp úr því að halda vistarverum hreinum og góðum anda í húsinu. Þetta er móttökufangelsi og hér staldra menn yfirleitt stutt við.
Það má segja að þetta sé gamli tíminn í fangelsismálum hér á landi og að margir bíði með óþreyju nýs fangelsis á Hólmsheiði, sem áætlað er að kosti rúma 2,1 milljarða.
Mikil uppbygging er fyrirhuguð á fangelsunum. Á næstu mánuðum verða endurbætt fangelsi opnuð formlega á Kvíabryggju og á Akureyri. Og til stendur að setja rúman hálfan milljarð í að bæta aðstöðuna á Litla-Hrauni. Alls er útlit fyrir að heildaruppbygging fangelsanna kosti um þrjá milljarða.
En það er ekki bara steinsteypa í fangelsunum heldur fyrst og fremst fólk af holdi og blóði. Á sunnudag veltir Pétur Blöndal því upp hvort markmið séu að nást um betrun í íslenskum fangelsum.