Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á fundi með sjálfstæðismönnum í Valhöll i morgun að sú ákvörðun að skerða þorskveiðiheimildir um 30% hafi verið djörf og afdrifarík ákvörðun, sem ekki hefði verið hægt að taka í síðustu ríkisstjórn. Segir Geir það að missa þorskstofninn eitt það hrikalegasta sem komið gæti fyrir og að hann ætli ekki að taka ábyrgð á að það gerist í sinni ríkisstjórn.
Í ræðu sinni sagði forsætisráðherra að ekki mætti gleyma því að með ákvörðuninni um skerðinguna væri ekki verið að búa til erfiðleikaástand af illum hug, heldur væri hún tekin vegna ráðlegginga helstu sérfræðinga.
Sagði Geir að það hefði komið mun verr niður á efnhagslífinu ef þurft hefði að taka þessa ákvörðun fyrir nokkrum árum, en að mikilvægi sjávarútvegs hafi minnkað mjög. Hann sagði skerðinguna þó ekki lítið mál fyrir þeim sem eigi allt sitt undir sjávarútvegi, og því hafi verið gripið til þeirra mótvægisaðgerða sem kynntar voru fyrir tveimur vikum.
Sagði forsætisráðherra það þó forsenduna fyrir þessum aðgerðum að þeir sem tapi aflaheimildum fái þær aftur þegar kvótinn verður aftur aukinn. Sagði Geir tilganginn með mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar þann að fjölga atvinnutækifærum, efla menntun og skapa störf í þeim byggðarlögum sem verst verða úti.
Geir sagði þó að ekki mætti gleyma því að sífellt væri verið að hagræða í sjávarútvegi og að menn mættu ekki skýla sér á bak við skerðingarnar þegar um væri að ræða eðlilega hagræðingu. Þá sagði Geir að hvað varðaði uppsagnirnar á Eskifirði og Þorlákshöfn, þá mætti ekki gleyma því að um væri að ræða varúðarráðstafanir og enn ætti eftir að koma í ljós hve margir muni missa störf sín á endanum þegar uppsagnarfrestur er liðinn.